Gagnlegar upplýsingar fyrir byrjendur

Á hverju ári, bætast margir í hóp fiskabúraeigenda og fá sér sitt fyrsta fiskabúr.  Þessu fylgir oftast mikil gleði þar sem þetta veitir viðkomandi einstakt tækifæri til að skapa nýja veröld og lífríki innan veggja heimilisins eða vinnustaðar. Til þess að byrja á réttum nótum er ákveðið ferli sem nýir fiskabúraeigendur þurfa að kynna sér. Það er nokkur atriði í því ferli sem er nauðsynlegt fyrir alla fiskabúraeigendur að læra og er þessi grein til þess fallin að veita byrjendum grunnþekkingu í uppsetningu og umhirðu á nýju fiskabúri.

Um fiskabúr

Í ám, vötnum og sjó er vatnið oftast hreint þar sem náttúran sér um að sía það,  í fiskabúrum er þetta aðeins öðruvísi þar sem fiskarnir treysta á eigendur sína til að halda lífríki þeirra heilbrigðu og stöðugu.  Það er nokkuð auðvelt að viðhalda heilbrigðu fiskabúri þegar þú ert búin(n) að læra undirstöðuatriðin og þau grunnskilyrði sem þurfa að vera til staðar. Eigendur fiskabúra þurfa að vera með góðan hreinsibúnað sem er reglulega viðhaldið.  Það þarf líka að gæta þess að vera ekki með fleiri fiska en lífríki viðkomandi fiskabúrs styður við en það fer allt eftir stærð fiskbúrs, tegund fiska, gæði hreinsibúnaðs og samsetningu lífríkis (plöntur, lýsing, rætur, steinar, möl o.s.f.v.).  Það er mjög mikilvægt að gefa fiskum ekki of mikið að borða en þetta eru ein algengustu mistökin sem byrjendur gera.  Einnig þarf reglulega að framkvæma vatnaskipti að hluta í fiskabúrinu til að viðhalda góðum vatnsgæðum.

Hvað þurfa nýir fiskabúraeigendur að hafa í huga (samantekt)

 • Stærð og staðsetning fiskabúrs (ekki hafa búrið of nálægt glugga vegna þörungamyndunar)
 • Hvernig er best að starta fiskabúrinu og hvenær er öruggt að setja fiska í það
 • Lýsing og hitastig
 • Val á fiskum og samsetning lífríkis
 • Næring (í gegnum mat og vatn)
 • Umhirða (hreinsibúnaður & vatnsgæði)

Hér er listi yfir hluti sem er gott að kaupa með fiskabúri

 • Sand eða möl fyrir botninn.
 • Skreytingar: T.d. lifandi eða gervi plöntur, rætur, steina, hella og annað skraut.
 • Bætiefni fyrir vatn (Easystart – einnig er gott að eiga smá lyf á lager fyrir algenga fiskasjúkdóma)
 • Háf: til að flytja fiska.
 • Fiskamat: Best er að ráðfæra sig við söluaðila til að fá ráð hvað hentar þínum fiskum best.
 • Aðrir hlutir sem oft fylgja með fiskabúrinu og þurfa að vera til staðar: Hreinsidæla, hitari, loftdæla, ljós.
 • UV hreinsiljós er mjög góð viðbót, sérstaklega í stærri búr þó ekki nauðsynleg (drepur þörung og margar tegundir af bakteríum).

Uppsetning fiskabúrs

Þegar að það kemur að fiskabúrum þá skiptir stærðin máli, stærra fiskabúr þýðir betri vatnsgæði, meiri stöðuleiki og minna viðhald. Þetta er gott að hafa í huga þegar kemur að vali á fiskabúri. Góð regla er að huga fyrst að mögulegri staðsetningu fiskabúrs og velja stærðina eftir því. Forðast skal sólríka staði nálægt glugga þar sem beint sólarljós getur leitt til mikillar þörungamyndunar ásamt því að fiskabúrið getur ofhitnað yfir sumartímann.

Hlutir sem gott er að hafa í huga við uppsetningu fiskabúrs

 • Gætið að undirstaða fiskabúrs sé slétt og styðji við heildarþyngd búrsins
 • Aldrei reyna að færa fiskabúr með hlutum eða vatni.
 • Aldrei reyna að lyfta fiskabúri með því að grípa í efri brúnir eða ramma.
 • Aldrei nota sápu, þvottaefni eða hreinsiefni.
 • Alltaf skola vel alla þá hluti sem fara í búrið.
 • Góð regla er að sjóða steina og rætur og aðra hluti, sérstaklega ef þeir hafa verið notaðir áður.

Hönnun (Decor)

Þegar kemur að því að hanna inniviði fiskabúrs þá er best að kynna sér mismunandi skreytt fiskabúr áður en hafist er handa.  Þegar þú ert búin(n) að ákveða hvernig stíl þig langar mest í þá er best að skoða og kynna sér hvaða tegundir þrífast best í þeim stíl. Tegundir frá Amazon og Suður Ameríku eru t.d. flestar hrifnar af gróðurbúrum með trérótum þar sem Afrískar síkliður eru meira fyrir steina og grjótlagað umhverfi.  Innviðir fiskabúrsins skipta líka máli varðandi efnaskipti vatnsins, rætur eru t.d. til þess fallnar að lækka sýrustig vatnsins þar sem steinar og grjót hækka það og gera vatnið meira basískt.  Einnig er hægt að setja upp sjávarbúr en ég mæli með að fólk byrji á ferskvatnsbúri þar sem sjávarbúr eru töluvert flóknara í uppsetningu.

Val á skrautfiskum

Sumir byrja á því að velja sér stíl á fiskabúri og velja sér svo fiska sem passa í þann stíl en aðrir ákveða fyrst hvaða fiskar eiga að fara í búrið og hanna svo innviði búrsins eftir tegund fiskanna.  Svo eru til einstaklingar sem mæla kranavatnið hjá sér (t.d. PH, GH, DH og ppm) og velja sér svo tegundir fiska sem passa best við efnasamsetningu kranavatnsins á heimilinu.  Mikilvægt að huga vel að samsetningu fiskategunda en þar er um nóg að velja.  Fisktegundir skipta þúsundum og er ennþá er reglulega verið að uppgötva nýjar tegundir.  Fiskar eru með ýmsar skapgerðir og sumir eru mjög friðsælir þar sem aðrir eru mjög skapstórir, stærri fiskar borða líka oft minni fiska o.s.fv. Fiskar eru einnig misharðgerðir eftir tegund og gera mismunandi kröfur um sitt umhverfi, sumum tegundum líður best í súru vatni (PH) sem er hörkulítið (GH) en öðrum líður betur í basísku vatni sem er oftast hörkumeira.

Umhirða Hreinsibúnaður

Mikilvægt er að vera með góðan hreinsibúnað sem styður við langvarandi heilbrigði lífríkis fiskabúrsins.  Mörg fiskabúr koma með innbyggðum dælum sem er oftast svart box sem inniheldur straumdælu, hreinsisvampa og „bioballs“ svo þá þarf maður bara að vita hversu oft og hvernig er best að þrífa innviði dælunnar.  Það er ekki þannig að það sé gott að halda innviðum dælunnar alltaf tandurhreinum þar sem þar myndast góðar bakteríur með tímanum sem brjóta niður ýmis eiturefni (ammonia og nitrite) sem myndast vegna matarafganga og úrgangs.  Ástæðan fyrir því að setja „Easystart“ bætiefni í fiskabúr er einmitt til að flýta fyrir myndun á góðum bakteríum (beneficial bacteria).  Það er því engin föst regla hvað varðar þrif á hreinsibúnaði heldur verða eigendur fiskabúra að meta það sjálfir og láta tilfinninguna ráða.  Áhrifaþættir sem hafa áhrif á tíðni hreinsunar á hreinsidælum og búnaði er stærð fiskabúrs, fjöldi og stærð fiska, magn matargjafa o.s.f.v.  Góð regla er að þrífa ekki alla hluti hreinsidælunnar á sama tíma. 

Vatnsskipti

Það er nauðsynlegt að skipta reglulega út hluta vatnsins í fiskabúrum til að viðhalda góðum vatnsgæðum.  Hversu oft og hvað mikið veltur að miklu leyti á sömu áhrifavöldunum og við mat á tíðni þrifnaðar á hreinsibúnaði en hjá flestum tegundum fiska og stærðum fiskabúra er góð regla að skipta út 25% af vatni allavega 1-2 í mánuði.

Bætiefni og lyf

Gott er að setja bætiefni í vatnið eftir vatnaskipti og næringu fyrir plöntur. Við mælum með vörunum frá Easy-Life en annars er gott að prufa sig áfram.  Íslenskt vatn er almennt steinefnasnautt en vatnið er mismunandi eftir landsvæðum.  Alla jafna þurfa fiskabúrseigendur á Íslandi ekki að hafa miklar áhyggjur af vatninu fyrir algengar ferskvatnstegundir en það er alltaf mjög gott að vera meðvitaður um gæði vatnsins sem er að fara ofan í fiskabúrið þitt.  Þetta eru kannski ekki nauðsynlegar pælingar fyrir byrjendur en samt sem áður gott að kynna sér.  Mikilvægt er að hafa í huga að ef veikindi koma upp í fiskabúrinu þína að nota réttu lyfin og hreinsa svo lyfin úr vatninu með vatnskiptum og kolum í hreinsibúnaði að lokinni lyfjameðferð.

Nítrat hringrásin (The Nitrigen Circle)

 

 

Við vonum að þessi grein hjálpi einhverju áhugafólki að taka sín fyrstu skref í þessu magnaða áhugamáli.

 

This entry was posted in . Bookmark the permalink.
Við leggjust í dvala yfir sumarið!
Það verða engir fastir opnunartímar á laugardögum í sumar en við munum áfram sinna póstsendingum og ekkert mál að hafa samband ef það er eitthvað. Við komum sterk tilbaka á haustmánuðum með spennandi breytingar sem kynntar verða síðar.